24.8.09

Akureyrarvaka á DaLí

Á Akureyrarvöku verður líflegt á DaLí Gallery og á vinnustofu DaLí. Það er opið gestum Akureyrarvöku kl. 14-17 og svo aftur um kvöldið frá kl.20-00. Dagskrá Akureyrarvöku á DaLí: Edda Þórey Kristfinnsdóttir og sýning hennar Vistaskipti. Síðustu forvöð og lokadagur sýningarinnar.
Steinn Kristjánsson verður með málverkasýningu í litla galleríinu KOM INN sem er litla rýmið á vinnustofu DaLí.
DaLíurnar, Dagrún og Lína pakka inn saumavél á súrrealíska vísu og verður heitt kakó í boði fyrir gesti gallerísins og sköpunarveggur þar sem má tjá sig á listrænan hátt.
Allir velkomnir.

28.7.09

Sex saman í Deiglunni á Listasumri

Sex sýna" er samsýning sex myndlistamanna. Þrjár konur og þrír karlar; Ása Ólafsdóttir, Dagrún Matthíasdóttir, Sigurlín M. Grétarsdóttir, Margeir Dire Sigurðsson, Ólafur Sveinsson og Trausti Dagsson opna saman myndlistasýninguna "Sex saman" í Deiglunni á Akureyri, laugardaginn 1. ágúst kl. 15:00 í tengslum við Listasumar.
Verkin á sýningunni fjalla öll á einhvern hátt um kyn, jafnrétti, kynlæga túlkun eða kynjahlutverk. Listaverkin á sýningunni eru ljósmyndir, skúlptúr, myndband, málverk, innsetning og textaverk.
Sýningin stendur til 16. ágúst og eru allir velkomnir. Opið þriðjudaga til sunnudaga kl.13-17 í Deiglunni í kaupvangsstræti.

8.7.09

TRÉ í DaLí Gallery

Sýningin TRÉ opnar í DaLí Gallery laugardaginn 11. júlí kl. 14-17. Á sýningunni TRÉ vinn ég í létt og ljóst rýmið sem DaLí Gallery er. Merking trés getur verið mjög fjölbreytt og táknmyndir þess margar og er sú tálsýn að peningar vaxi á trjánum mjög heillandi. Ég réðst í að gera mína útgáfu af peningatré með það í huga gera það án kostnaðar og að vinna það sem mest úr efni sem annars færi á haugana. Síðan uxu fleiri tré inn í rýmið. Efni sem unnið var úr: Dagblöð, pappi, lím, málning, umbúðarpappír, graphit litir, afklippur úr garðinum og vegakort. Sýningin stendur til 19. júlí og allir eru velkomnir.

21.6.09

SKURN á skúrþakinu

Farfuglinn SKURN sem gerðist staðfugl á Öngulstöðum í fyrra á sýningunni Staðfugl/Farfugl og átti vetrardvöl í garðinum mínum þar á eftir, flaug með vorinu á skúrþakið hjá henni Öllu í næsta húsi. SKURN sómir sér vel þar og ætlar að dveljast þar áfram á þessu fallega gula húsi í Oddagötunni.

Gyðjan Freyja

NÚTÍMA FREYJA -MÓÐIR-KONA-MEYJA er titill Freyjumyndarinnar í Landsbankanum á Ráðhústorgi hér á Akureyri í tengslum við samsýninguna FREYJUMYNDIR. Þetta er samsýning 27 listamanna þar sem hver fyrir sig túlkar gyðjuna Freyju í listaverki, finna gyðjunni stað og setja verkin upp í kringum sumarsólstöður. Nútíma Freyja er gyðjan sem boðar ást og frjósemi eins og til forna. Hún er nútímakonan sem tók þátt í búsáhaldabyltingunni og vill sjá meiri ást í samfélaginu, stjórnkerfinu og efnahagskerfi landsins, og umfram allt uppræta spillingu og sjá allt samfélagið dafna á ný. Freyjumyndir er hluti af viðburðaröðinni Vitið þér enn, eða hvað? Viðburðirnir eru á vegum Mardallar - félags um menningararf kvenna. Sýningarstjóri Freyjumynda er Guðrún Pálína Guðmundsdóttir og hefur hún notið aðstoðar Hrefnu Harðardóttur. Valgerður H. Bjarnadóttir er upphafsmaður viðburðaraðanna á vegum Mardallar og skipuleggjandi fjölþjóðlegrar ráðstefnu sumarið 2010 en þar með lýkur viðburðaröðinni. Sunna Valgerðardóttir sá um uppsetningu bæklings sem má nálgast hér: http://www.freyjumyndir.blog.is/users/9f/freyjumyndir/files/freyja_baeklingur.pdf

2.4.09

MATARLIST - Food Art in Startart

Sýningin Matarlist opnar í Startart á Laugarvegi 12 b í Reykjavík 4. apríl kl.15. Þar sýni ég olíumálverk af mat sem hefur verið mér hugleikið myndefni upp á síðkastið. Málverkin eru máluð striga og mdf plötur, bæði 2008 og 2009. Verkin sem máluð voru á síðasta ári eru 90x90 cm og þau nýju sem eru rétt að þorna eru 40X40 cm. Ég hef yndi af því að elda og er alltaf mál að mála. Að vinna með mat í myndlist hefur verið mér hugleikið undanfarið og er ég hér að mála þann mat sem hefur dúkkað upp á borð hjá mér. Í raun er tíðarandin svolítið back to the basic eða sá að hefðbundinn íslenskur matur er mun oftar í matinn og ratar þess vegna í málverkin mín. Maturinn er bara svo fallegur, formin og litirnir heilla mig svo ekki sé minnst á bragðið!
Hér má sjá umfjöllun um sýninguna ásamt öðru á Landpóstinum: http://landpostur.is/news/daliur_blomstra_i_borginni/

5.2.09

Kappar og ofurhetjur í GalleríBoxi

Kappar og ofurhetjur opna samsýningu í GalleríBOXI laugardaginn 7. febrúar kl.15. Þetta er samsýning félaga í Myndlistafélaginu og má sjá mjög fjölbreytt listaverk á einskonar móti félagsmanna. Þetta er líka fyrsta skipulagða samsýning Myndlistafélagsins, svo ég gekk stolt með slátrið mitt í BOXið til að sýna það með öllu okkar góða listafólki.
Sýningin stendur til 6. mars og er opinn alla laugardaga og sunnudaga milli kl. 13:00 og 15:00.