23.8.07

Dugnaður hjá Grálist

Fólkið í GRÁLIST eru eins og gráir kettir út um allt! Steinunn Ásta opnaði sýningu í Bárubúð á Dalvík á fiskidögum sem stendur enn og Margeir Dire réðist í að graffa stóran vegg í eigu Björgúlfsfjölskyldunnar á einu húsi þeirra í Hverfisgötunni, spreyjaði listræna apaketti. Svo graffar hann á DaLí Gallery á Akureyrarvöku. Steinn vinnur á Veggverk, Steinn á stein á Akureyrarvöku og Steini verður með fiskisögur í KOM-INN á DaLí Gallery það sama kvöld. Sýning er í bígerð hjá Karen Dúu á næstunni og súpurnar mínar eru að fara í ferðalag og verða sýndar á Kaffi Vor á laugarveginum í Reykjavík. Heldnúbaraþað! Kraftur í GRÁLIST!

10.8.07

Kindarleg sveitarómantík snúrusýningu

Handverkshátíðin að Hrafnagili var opnuð með formlegheitum og löngum ræðuhöldum í morgun og fengum við í Grálist hjá Víðáttu601 óvænta viðbót við snúrusýninguna góðu. Jú, við erum nokkuð á þjóðlegu nótunum í list okkar og fast uppvið nyrðsta snúrustaurinn jarma kindur í girðingu. Nokkuð kindarlegt en viðeigandi. Svo ekki sé minnst á kornakurinn austan megin við okkur, vinnuvélarnar vestan megin og auðvitað allt skemmtilega handverkið sunnan við okkur með kornið að leiðarljósi. Ég er í sveitó fílíng í dag enda í mjög svo fornu handverki, lopapeysunni góðu sem tengdamamma mömmu hennar Línu prjónaði, notaði og átti í áranna rás og færði svo mömmu Línu, ástkærri tengdadóttur sinni peysurýjuna fyrir um 17 árum síðan. Sem síðan Lína mín átti og gaf mér. Einhversstaðar heyrði ég spakmæli að góð vinkona væri eins og hlý lopapeysa. Kannski verður þetta svona framhaldssögupeysa sem gengur mann af manni eins og sögurnar forðum. Jæja, vinir mínir ég vona að þið hafið smitast af sveittapúkafílíngnum í mér og fundið sveitailminn í gegnum bloggið.



9.8.07

Sýningar hjá Grálist


Þá er stóra samsýning Grálistahópsins að bresta á. Við erum að setja upp snúrusýninguna á vegum Víðáttu601 á Hrafnagilshátíðinni sem sett verður á morgun klukkan 10. Á vegum grálistar eru þessir 11 aðilar; Þorsteinn Gíslason, Steinn Kristjánsson, Sigurlín M. Grétarsdóttir, Linda Björk Óladóttir, Inga Björk Harðardóttir, Margeir Dire Sigurðsson, Unnur Ottósdóttir, Aðalbjörg Kristjánsdóttir, Steinunn Ásta Eiríksdóttir, Guðrún Vaka og Dagrún Matthíasdóttir. Við erum öll að fást við eitthvað þjóðlegt sem hengt er á gamaldags snúrur. Það er FRÁBÆRT hvað Grálistar eru duglegir þessa dagana því fleiri sýningar eru í gangi hjá hópnum. Kristín Guðmundsdóttir er að opna einkasýningu á Kaffi Von í Reykjavík næsta sunnudag, það er samsýning í Deiglunni á Akureyri hjá Ingu Björk Harðardóttur, Sveinbjörgu Ásgeirsdóttur, Unni Ottósdóttur, Aðalbjörgu Kristjánsdóttur og Charlottu Þorgils. Dagrún Matthíasdóttir (ég) er á Kaffi Karólínu og Steinunn Ásta Eiríksdóttir er með myndverk á Veggverk við Drottningarbrautina.
Þar sem gárungarnir í Grálistahópnum kalla mig grámömmu þá verð ég nú að lauma því að , að ég er einstaklega stolt móðir. Flott frammistaða og næst á dagskrá er að virkja bloggið okkar. Ég hlakka til.

4.8.07

Súpur á Café Karólínu


Þá er komið að því! Sýningin mín á Kaffi Karólínu hefst á morgun 4. ágúst klukkan 14 og er yfirskriftin Súpur.

Mín fyrstu kynni af Kaffi Karólínu voru góðu súpurnar í hádeginu fyrsta veturinn minn hér í á Akureyri. Minningin um matarmiklar súpurnar sem aðalmáltíð dagsins varð til þess að mér fannst tilvalið að sýna súpur á minni fyrstu einkasýningu þar. Súpur er skemmtilegur og fjölbreyttur matatkúltúr sem fyrirfinnst allsstaðar í heiminum og má nánast gera súpu úr hverju sem er. Mín nálgun á súpur eru í þetta sinn í uppskriftarformi myndmáls og í texta, sem soðið er saman með myndbandi, olíu, akrýl og túss