29.7.06

Útskriftarverkið í heild

HVAÐ ER TRÉ ÞÉR? Ég fór á stúfana og tók viðtöl við fólk á aldrinum 6-80 ára og tók upp það sem þau höfðu að segja um merkingu trés í sínum huga og hvaða þýðingu tré hafi fyrir þeim. Hljóðverkið eru frásgnir þeirra. Ég málaði líka tvær samstæðar olíumyndir og færði texta úr upptökunum í málverk. Svo var innsetning þar sem ég kom tré fyrir á mitt gólf og varpaði skugga þess á vegginn og laufgaði skuggan með orðunum úr frásögnunum eða merkingu trés. Saman myndaði þetta heild þar sem áhorfandinn gat hlustað á frásagnirnar og virt fyrir sér tréð, lesið textan og skoðað málverkin í einni heild og upplifað merkingu trés í eigin huga og gerst þannig þátttakandi í verkinu.

20.7.06

KRUMMI-HVAÐ ER TRÉ ÞÉR



Ég og Guðrún Vaka opnuðum myndlistasýningu um síðustu helgi (15/7) í Óðinshúsi á Eyrarbakka og köllum sýninguna KRUMMI-HVAÐ ER TRÉ ÞÉR. Við sameinuðum þarna útskriftaverkin okkar með örlítilli viðbót og erum hæstánægðar með móttökurnar. Salurinn er bara flottur og hráleiki hússins er einstaklega heillandi í sínum gamla stíl. Ég er með verkið HVAÐ ER TRÉ ÞÉR sem samanstendur af hljóðverki sem eru upptökur af frásögnum fólks um hvað tré standi fyrir og merki í þeirra huga, samstæðum olíumálverkum og akrylmálverkum af trjágreinum og laufum í vetrarbúningi. Guðrún Vaka er með verkið KRUMMI sem eru ljósmyndir af krumma með texta um minningar hennar í ljóðum sem er prentað á segldúk. Við fengum líka óvæntan gjörning á sýninguna um hamingjugyðjuna Fullu. Gjörninginn fluttu listafólkið Unnur og Reynir Katrínar. Það skapaðist rammíslensk stemming í Óðinshúsi, þar sem kraftar Krumma, vetrar, gróðurs, frásagna, minninga og tónaðra rímna gjörningsins sameinuðust fornu andrúmslofti hússins. Fyrir mér var þetta ógleymanleg stund og ég er full hamingju. Sýningin okkar er opin næstu tvær helgar eða til 30.júlí, laugardaga og sunnudaga kl.14-18.

Hér má sjá gagnrýni á mbl.is: http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=1095003

5.7.06

Um mig


Ég er Dagrún og bý á Akureyri með fjölskyldu minni. Maðurinn heitir Kristján Örn og dóttir okkar Dagmey Björk. Svo eru hinir fjölskyldumeðlimirnir persneskir kettir og ferskvatnsfiskar. Ég er myndlistakona útskrifuð úr Myndlistaskólanum á Akureyri og er nemi í Nútímafræði í Háskólanum á Akureyri. Ásamt vinkonu minni Línu rek ég DaLí Gallery í Brekkugötu 9 á Akureyri og þar erum við líka með vinnustofuna okkar. Þar bröllum við margt skemmtilegt saman og fáum til okkar frábæra gesti, myndlistamenn, listunnendur og allskonar skemmtilegt fólk.