21.11.12

málað í sparikjólum

Listakonurnar ég, Brynhildur og Jonna vorum með málverkagjörning í listagilinu á afmælishátíðinni. Þar máluðum við sameiginlega málverk úti í fólksmegðinni, allar klæddar gömlum sparikjólum. Málverkið ber myndefni sem hæfir afmæli og þeim anda sem átti sér stað í gilinu þann daginn.

Samsýningar í Listagilinu 2012

Mikið var um að vera í Listagilinu þetta sumarið. Sýningin Fossgangan hófst í Mjólkurbúðinni, rataði niður í Hof og var þar til sýnis þar til á Akureyrarvöku og 150 ára afmælishátíð Akureyrarbæjar en þá kom Fossgangan aftur í Mjólkurbúðina og sprangaði um bæinn. Fossinn Dynjandi var þátttakandi í því verkefni og einnig mitt framlag í stóru samsýningunni Hér þar og allstaðar. Dýfurnar voru í Sundlaug Akureyrar og voru teikningar mínar til sýnis þar.

Myndlistasýningar í Noregi

Á eyjunni Aukra í Milda galleri, rétt utan við Molde opnuðum ég, Gunn og Helen samsýningu í maí 2012. Það var margt fólk á opnun og mikil gleði. Daginn eftir opnuðum við aðra samsýningu í Walstad Gard í Isfjorden og voru móttökurnar þar líka vonum framar. Síðan fékk ég að nota vinnuaðstöðuna á grafíkverkstæðinu í Grötta og vann þar skemmtileg þrykk með frjálslegum aðferðum. Í haust var sett upp wc-samsýning í Grötta og þar hangir verk eftir mig líka.

23.2.12

Uppáhalds og Pottar

Í mars sýndi ég svo sýninguna Potta í Mjólkurbúðinni en þar lék ég mér að pottforminu, notaði klippimyndir og blandaða tækni. Olíumálverk og akrylmálverk af pottum og innihaldi þeirra. Myndlistarfélagið opnaði samsýningu félagsmanna laugardaginn 28. janúar kl. 14.00. Heiti sýningarinnar Uppáhald er til marks um að félagsmenn sýna uppáhaldsverkið sitt eftir sjálfa sig.

Þá var haldið upp á fjögurra ára starfsemi Myndlistarfélagsins auk þess að starfsmaður Inga Björk var boðin velkomin til starfa hjá félaginu. Sýningarstjóri var Joris Rademaker.

Uppáhaldsverkið sem ég valdi er lítið portrait olíumálverk af dóttur minni Dagmeyju Björk sem var sérstaklega gerð fyrir fyrsta verkefnið sem ég tók að mér ásamt fleirum fyrir Myndlistarfélagið, sem var opnunarsýningu Myndlistarfélagsins í Hofi Menningarhúsi. Sú sýning tókst mjög vel og var góð kynning á hagsmunafélaginu okkar. Því varð uppáhaldsverki mitt og uppáhaldsstelpan mín kjörið verk á sýninguna Uppáhalds.

Delicious í New York


Þrjár skandinavískar listakonur sýna í Cælum Gallery á Manhattan í New York.
Listakonurnar Dagrún Matthíasdóttir frá Íslandi, Gunn Morstöl frá Noregi
og Helen Molin frá Svíþjóð opnuðu sýningar undir yfirskriftinni „Delicious“ í Cælum Gallery í
Chelsea á Manhattan í New York nú í vikunni og taka á móti gestum í
formlegu opnunarteiti 29. sept. milli kl. 18-20.

Listakonurnar hittust á stórri samsýningu í Eyjafirði, Staðfugl-Farfugl
árið 2008 og ákváðu þá að hittast og sýna saman í framtíðinni sem nú er
orðið að veruleika.

Dagrún Matthíasdóttir sýnir málverk unnin með olíu og blandaðri tækni og
er umfjöllunarefnið matur og matgæðingar.

Helen Molin er búsett í Gautaborg í Svíþjóð, sýnir stór málverk unnin með
eggtempúru og fjallar um skynjun hins mannlega í bland við náttúruna.

Gunn Morstöl er frá Isfjorden í Noregi. Hún sýnir málverk unnin með
blandaðri tækni og ætingu, þæfða skúlptúra og textílverk og er
umfjöllunarefnið rómantískt og fjallar um mannleg samskipti. Cælum Gallery skiptist í 3 sýningarými og hver listakona nýtur sinnar einkasýningar auk þess sem á milli þeirra liggur vinalegur þráður í myndsköpuninni.