17.2.14

List á Vestfjörðum

List á Vestfjörðum 2014 kom út síðasta haust. Ég fékk það verkefni að búa til forsíðu fyrir blaðið. Úr varð þetta verk þar sem ég ákvað að gera hóp á fjöllóttan bakgrunn og úr varð að setja fígúrur úr listasögunni í hóp, þar sem þemað er hópar þ.e. listasaga í vestfirsku umhverfi. Í grunni málverksins eru rifrildi úr reyfara, því mér var hugsað til skálda, síðan eru þarna persónur skapaðar af meisturum listasögunnar sem ég vona að megi skilja sem holdgervinga vestfirskra listamanna og/eða hóp meistara! Fígúrur fengnar að láni: Pablo Picasso - úr verkinu Friður, Frida Kahlo - sjálfsmynd á landamærum Mexico og Bandaríkjanna, Réne Magritte- úr verkinu Leyndardómur sjóndeildarhrings, Edgar Degas- úr verkinu Dansmeyjarnar, Goya - úr verkinu Útför sardínunnar, Jessie Oonark - úr verkinu Angagok Conjuring Birds.

Almanak 2014 Art.365.is

Mér bauðst þátttaka í gerð almanaks ásamt 364 öðrum listamönnum og hönnuðum og sló ég til og sendi Kjúklingasúpuna mína. Hverjum listamanni var úthlutað einni síðu, einum degi, í almanakinu þar sem að verk hans er til sýnis. Verkin eru prentuð á vandaðan endurunnin pappír í stærðinni 28x33.5 cm. List í 365 daga má líkja við listviðburð sem að stendur allan ársins hring, þar sem að hægt er að njóta þess að hafa daglega nýtt listaverk fyrir augum. Markmiðið er að sýna þá miklu grósku og gerjun sem á sér stað í skapandi greinum hér á landi. List í 365 daga er óhefðbundin og einstök leið til þess að njóta þess besta sem að íslenskt listalíf hefur upp á að bjóða.

Luciano Benetton og verkefnið Imago Mundi

Síðasta haust tók ég þátt í verkefni á vegum Luciano Benetton, formanni Fondazione Benetton Studi e Ricerche (Menningar og rannsóknarsjóður Benetton) í Treviso og eigandi Benetton vörumerkisins. Markmið verkefnisins er að safna saman 144 listaverkum frá hverju landi sem saman mynda „heimsmynd“ eða Imago Mundisem er latneska heiti verkefnisins.Verkin munu verða sýnd í tengslum við Feneyjartvíæringin í tvo mánuði, frá ágúst 2013 en þáttöku Íslands í sýningunni hefur verið frestað en vonumst við til að vera með í næsta skipti.Sýningarstaður er Fondazione Querini Stampalia (www.querinistampalia.it). Einnig munu verkin verða sýnd á öðrum sýningum og/eða kynningum. Allir þátttakendur fengu afhendan striga 12x10 cm til að vinna verk á og hélt ég áfram með Global Warming verkefni mitt síðan í Ungverjalandi og sendi eina slíka mynd til þátttöku.

HVÍTT í Mjólkurbúðinni

Jólasýning 2013 bar yfirskriftina HVÍTT. Þáttakendur voru: Mireya Samper, Jónborg Sigurðardóttir, Laufey M. Pálsdóttir, Brynhildur Kristinsdóttir, Thora Karlsdóttir, Anna Gunnarsdóttir, Guðrún Vaka og ég Dagrún Matthíasdóttir. Listaverkin voru fjölbreytt, akrylmálver, olíumálverk,málverk unnin með blandaðri tækni skúlptúrar, leir og ljóð. Konur í hvítu skemmtu sér eins og drottningum sæmir við uppsetninguna, dönsuðu og nutu matar og héldu litlu jólin í Mjólkurbúðinni. Sýningin kom vel út yfir hvíta jólahátíðina.

Fossaganga í Listasafninu á Ísafirði

Unnur Óttarsdóttir og Dagrún Matthíasdóttir sýndu fossamálverk og frömdu gjörninginn Fossagöngu laugardaginn 5.október í Listasafninu á Ísafirði og næsta nágrenni. Málverkin voru tímabundið færð út fyrir sýningarrýmið var gengið með þau um götur Ísafjarðar. Farið var með Fossagönguna frá Gamla sjúkrahúsinu yfir í það nýja og var myndlistin færð til fólksins sem ekki átti heimangengt á opnun hinu megin götu. Grunnskólabörn á Ísafirði fengu leiðsögn um sýninguna og einnig var sérstaklega haldin húslestur um fossa á Listasafni Ísafjarðar, í tengslum við sýninguna. Það voru frábærar móttökur á Ísafirði, starfsfólk Gamla sjúkrahússins og sjálfboðaliðar í fossagöngu létu ekki sitt eftir liggja og eiga bestu þakkir skilið. Hugmyndin á bakvið Fossagöngu: Vatnið, mannsandinn og tjáning manna á meðal fossar áfram, stíflast eða höktir. Virkjun fossa á Íslandi hefur verið mótmælt síðastliðin ár. Í stað mótmælagöngu er sýningin Fossaganga meðmælaganga og óður til fossa og náttúrunnar almennt þar sem gengið verður í fossafylkingu um Ísafjörð.

Art Camp og sýning í Ungverjalandi

Í byrjun Ágúst fór ég til Ungverjalands í svokallaðar vinnubúðir listamanna á vegum Block Art Assotiation í Búdapest, í hálfan máðnuð. Vinnuaðstaða var sett upp í litla bænum Nagykáta í gamalli skólabyggingu Erdöszölö. Þar voru listamenn frá ólíkum löndum og var ég eini íslendingurinn og var mér vel tekið. Ég fékk nafnbótina dóttir Matthíasar - Mátyás lánya og var titluð prinsessa að auki. Að lokinni vinnudvöl var sett upp stór samsýning i Mamü gallery í Búdapest. Þar voru ræðuhöld og fagnaður og fékk ég íslenska Mátyás lánya sérstaka kynningu og ég hneygði mig að sjálfsögðu fyrir þessu góða fólki. Á myndunum eru verkin sem ég kalla GLOBAL WARMING. Ég leyfði mér að verða fyrir áhrifum hita og umhverfis þar úti og byrjaði ég á að ná litum umhverfisins í Erdösölö en það var steikjandi hiti, 39°í skugga allan tíman og suðrænir tónar í umhverfinu. Síðar bættust við litir frá íslensku köldu umhverfi og enduðu saman í fullunnum olíuverkum.
_

Fossaganga á Mærudögum - Húsavík

Við listakonurnar Unnur Óttarsdóttir og Dagrún Matthíasdóttir fórum með sýninguna FOSSAGANGA til Húsavíkur á Mærudögum, í júlí 2013. Við settum upp sýningu í gömlu verbúðunum og það var líf og fjör á Húsavík. Við upphengingu á föstudagskvöldi láðist okkur að taka með rétta nagla, því við höfðum ekki hugmynd um að þar væru þykkir og vel harðir steinveggir.Góð vinkona Halla Stefánsdóttir búsett á Akureyri en er frá Húsavík fór í leiðangur. Hún gekk í gömlu götuna sína og bankaði upp á hjá gömlu góðu grönnum sínum úr barnæsku og þeir söfnuðu saman stálnöglum af öllum stærðum og gerðum. Voru sumir meira að segja teknir úr veggjum fyrir okkur listakonurnar. Það er dásamlegt og hjálpsamt fólk á Húsavík. Fossagangan gekk vel og fengum við lof í lófa meðal hátíðargesta.