4.12.08

DaLí Vinnustofa opin 13.-14.desember


Við dalíurnar ætlum að bjóða gestum og gangandi að kíkja við á vinnustofunni okkar um helgina 13.-14. desember, kl.14-17.

Þar má sjá verkin okkar og þiggja heitan sopa og kíkja í leiðinni á kreppuhilluna svokölluðu sem inniheldur myndlist á sanngjörnu verði.


Á DaLí vinnustofu starfa Dagrún og Lína og Inga Björk og Krumma.

Verið velkomin.

7.9.08

Ísbjarnarspor og senn flýgur SKURN










Spor hvítabjarnarins var hægt að rekja frá sjó og upp gilið að Deiglunni á Akureyrarvöku. Sást það glögglega að hann er smekkbjörn því hann staldraði við bæði á Bautanum og hjá Friðriki Fimmta. Hann tók líka listalabbið við Ketilhús, Listasafnið, Deigluna, DaLí og Veggverk með viðkomu hjá Ferðafélagi Akureyrar og hjá Hofi þar sem hann naut gjörnings Önnu Richards. Þetta uppátæki bangsa að spígsora um á menningarvökunni fékk skemmtileg viðbrögð. Börn gerðu sér leik og röktu sporin og spunnu sín eigin ævintýri um hvað hann hafi verið að gera á leið sinni.

SKURN flýgur brátt heim og yfirgefur sveitasæluna á Öngulstöðum. Sýningunni Staðfugl Farfugl í Eyjafjarðarsveit lýkur 15. september.

12.8.08

GRÁLIST - engin smá list

Grálist engin smá list - er yfirskrift samsýningar Grálistahópsins í Deiglunni 16. ágúst kl. 14.
14 meðlimir í Grálist sýna verk sem mælast öll meter eða meir, sem er sameiginlegi útgangspunkturinn í verkunum, sem er í raun mótvægi við sýningu hópsins Grálist með smálist í desember 2007. þá var unnið var út frá
því að ekkert verk væri stærra en 20 cm.

Mitt framlag er verkið HÆ HÓ JIBBÍ JEI. Ísbjörninn góði sem rak á fjörur um þjóðhátíð okkar Íslendinga og tröllreið fjölmiðlum landsins, tók yfir forsíður blaða og olli miklu fjaðrafoki í þjóðfélaginu. Átti að drepa hann? Máttu blaðaljósmyndarar mynda hann? Var hann bara grænmetisæta? Áttum við að bjóða honum að borða okkur? Átti að senda hann í dýragarð í Danmörku? Var þetta nýbúi? Bangsi var felldur og líka sá næsti, en engu að síður sáust spor um allt land og hvítabirnir sáust víða bæði í vöku og draumi þetta sumarið.

Samsýningin GRÁLIST engin smá list inniheldur verk eftir listamennina Stein Kristjánsson, Karen Dúu Kristjánsdóttir, Guðrúnu Vöku, Dögg Stefánsdóttur, Sveinbjörgu Ásgeirsdóttur, Ingu Björk Harðardóttur, Herthu Richardt, Margeir Dire Sigurðsson, Sigurlín M. Grétarsdóttur, Kristínu Guðmundsdóttur, Unni Óttarsdóttur, Steinunni Ástu Eiríksdóttur, Ásu Ólafsdóttur og Dagrúnu Matthíasdóttur

18.6.08

Gestaboð Búffu

Gestaboð Búffu er málverkasýning til heiðurs Búffu búfræðings, sem er dulnefni systkinana í Alviðru á Sirrý stóru systur sem reynist sá mesti búfræðingur þegar nær er litið.
Gestaboð Búffu verður á Dýrafjarðardögum í sláturhúsinu við Odda á þingeyri helgina 4.-6 júlí. Gestaboð Búffu verður formlega opnað á föstudagskvöldinu kl.22 að lokinni setningu Dýrafjarðardaga og útgáfutónleikum í Þingeyrarkirkju. Sláturhúsið og Gestaboð Búffu verður opið laugardag og sunnudag kl. 14-18.
Eru allir gestir sem streyma til Þingeyrar, víkingar, íbúar, nágrannar, ættinjar, óætt-ingjar, staðfuglar, farfuglar, innlendir sem erlendir boðnir og velkomnir að líta við.









31.5.08

SKURN - VARP

Staðfugl Farfugl samsýning í Eyjafirði var formlega opnuð í dag. Eyjafjarðarsveit skartar sínu fegursta með skemmtilegum fuglum og listaverkum eftir staðfugla og farfugla á öllum aldri.

Mitt framlag er skúlptúrinn SKURN sem stendur við Öngulstaði og þátttaka í verkinu VARP sem 11 manns í Grálist - Artgroup Grálist - unnu saman.

VARP: Við í Grálist tókum flugið inn Eyjafjörð og verptum saman á varplöndunum við Torfur, Smámunasafnið og á Rifkelsstöðum. Á Rifkelsstöðum var verpt í röngu landi fyrir mistök skipuleggjenda enda verður það hreinsað í burtu með fullri virðingu fyrir öllu varpi og landareignum.

SKURN: Ég er staðfugl sem víkkaði út sjóndeildarhringinn og gerðist farfugl. Sem farfugl er ég alltaf sami staðfuglinn því hvar sem ég lendi geri ég mér hreiður. Ég brýst út úr skelinni og held á ný mið en ber samt uppruna minn með mér hvert sem ég fer.




I am a stationary bird who did brighten my horizon and became a migratory bird. As a migratory bird I am still the same old stationary bird and make my nest wherever I lend.
I break out from my shell and explore new places and carry my background with me wherever I go.

9.5.08

Á döfinni

Þá er skólinn búinn og alvara listalífsins tekin yfir að fullu. Myndlistaáfangarnir með kennaranemum og leikskólakennaranemum í HA héldu mér vel við efnið. Hlaupárshreingjörningurinn, gjörningurinn KUKL, Veggverk, DaLí Gallery, Grálist og vinnan í Gilfélaginu. Framundan í lok maí er samsýningin Staðfugl-Farfugl í eyjarfjarðarsveit. þar sýni ég skúlptúrinn SKURN og tek þátt í verkinu VARP með Grálist. Á Dýrafjarðardögum í júlí opna ég einkasýningu í gamla sláturhúsinu á Þingeyri til heiðurs Búffu búfræðings og í ágúst með samsýningahópnum Grálist í Deiglunni á Akureyri í boði Listasumars.
Set inn tilkynningar jafnóðum og myndir.

7.4.08

Hlaupárshreingjörningur

Mitt framlag í Alheimsgjörningi í ár ber heitið Hlaupárshreingjörningur sem nánar er lýst:
,, something was growing in my kitchen... Sá hreingjörningur fólst í því að hreingjöra það sem óx í eldhúsinu mínu allan febrúarmánuð þetta árið og hlaupa með það út í garð á hlaupársdag og urða það....and now it is growing in my garden".
Á laugardagskvöldið 12. apríl verður 4 sýningin í Alheimsgjörningi Önnu Richardsdóttur til 10 ára í bílageymslu við Norðurorku á Rangárvöllum. Þar verða framkvæmdir hreingjörningar auk þess sem myndir og verk frá hreingjörningum annarra listamanna verða þar á samsýningu.
Til hamingju Anna og takk fyrir að treysta mér til hreingjörninga.

16.1.08

,,Lífið er saltfiskur"



,,Lífið er saltfiskur”! Mér hefur alltaf þótt þetta snilldarfrasi. Allt frá því ég las bækurnar hans pabba um teiknimyndafígúruna Siggu Viggu og skildi hvorki frasann um saltfiskinn né pólitíska þráðinn í sögunum. En þótti drepfyndið að lífið gæti verið saltfiskur! Síðar á unglingsárunum vann ég í saltfiski inni á Langeyri við Álftafjörð og kynntist af eigin raun bæði saltfiskinum og striti vinnunnar í svuntu og stígvélum frá 66°norður.

Ekki nóg með að saltfiskur sé góður á bragðið og ég eigi góðar minningar um vinnu í saltfisk , þá er form sólþurrkaða saltfisksins myndrænt séð mjög flott. Frasinn ,,Lífið er saltfiskur” poppast alltaf upp öðru hvoru í umræðunni og finnst mér því tilvalið að nota form saltfisksins í myndsköpun svona rétt eftir neyslubrjálæði jólahátíðinnar á Veggverk og flytja það af einum vegg á annan yfir í DaLí Gallery og taka þar á móti skemmtilegu fólki 19. janúar kl.17.


Viðtal í 24stundum á bls.33 hér:
http://mbl.is/bladidnet/2008-01/2008-01-18.pdf


umfjallanir: http://veggverk.org/Site/Dagr%C3%BAn_Matth%C3%ADasd%C3%B3ttir.html#6
http://veggverk.org/Site/Dagr%C3%BAn_Matth%C3%ADasd%C3%B3ttir.html#5